top of page

Viðburðir á næstunni

Healthy Buildings Conference Series, Europe 2025 (HB 2025)

08/06/2025 - 11/06/2025

Evrópska svæðisráðstefnan um heilbrigðar byggingar verður haldin í Reykjavík 8.-11. júní næstkomandi. 

Á tímum loftslagsbreytinga verðum við að tryggja að byggingar skaði hvorki jörðina né heilsu þeirra sem dvelja í þeim. Við þurfum að beina sjónum okkar bæði að umhverfinu og fólkinu. Til þess að draga úr kolefnisspori bygginga og stuðla að sjálfbærni, þurfum við að sameina fjölbreytta þverfaglega þekkingu. Á sama tíma verðum við að tryggja að inniloft sé eins öruggt og heilnæmt og kostur er. Ástand og hönnun bygginga gegna lykilhlutverki í að móta gæði innilofts.

Ráðstefnan er þrír dagar og eftir að fromlegri dagskrá lýkur verður málþing fyrir íslenska fagaðila, þann 11. júní kl. 13:00.​​

Grænni byggð heldur vinnustofu um New European Bauhaus í lok málþingsins. Skráningarhlekk fyrir málþingið má finna hér að neðan. ​​

healthy buiuldings.jpg

Eldri viðburðir

Eldri viðburðir

Vinnustofa: Getur New European Bauhaus verið svarið við þeim áskorunum sem íslenskur arkitektúr og hönnun standa frammi fyrir? 

04/06/2025

Vinnustofa um hugmyndafræðina New European Baushaus var haldinn miðvikudaginn 4. júní kl. 9:30-11:00 í Fenjamýri í Grósku í samstarfi Arkitektafélags Íslands og Grænni byggð.

 

Elín Þórólfsdóttir hélt stutt erindi um New European Bauhaus og Katarzyna Jagodzinska frá Grænni byggð tók síðan við og útskýrði hugmyndafræðina frekar. Eftir það tóku þátttakendur þátt í vinnustofu þar sem umræður fóru fram í minni hópum og í lokin deildu hóparnir sínum hugmyndum með öllum hópnum. Um 35 manns tóku þátt og sköpuðust áhugverðar og þarfar umræður um sjálfbærni, fegurð og inngildingu í byggingariðnaði! 

IMG_1170.jpeg

Bakgrunnur

Fegurð og sjálfbærni

Í þó nokkur ár hefur verið mikið rætt um sjálfbærni í tengslum við íslenskan arkitektur og hönnun og hafa umhverfisáhrifin oft verið ráðandi í umræðunni. Félagslegir og fagurfræðilegir þættir fá þó sífellt meira vægi, eins og merkja má af nýlegri og viðvarandi umræðu um fagurfræði nýrra íslenskra bygginga. Spurningin sem vaknar helst er þó hvort hægt sé að sameina þessi þrjá þætti - fagurfræði, félagslegu hliðina og sjálfbærni?

Hugmyndin um New European Bauhaus (NEB) gæti svarað þessari spurningu þar sem hún sameinar sjálfbærni, fegurð og inngildingu í byggingariðnaði. Hún skilgreinir þessa þrjá þætti á skýrari og hagnýtari hátt sem eru á mörkum þess að vera mælanlegir. En hvert er notagildi NEB í íslensku samhengi? Getur NEB hjálpað til við að leysa þau vandamál sem íslenskur arkitektúr og hönnun standa frammi fyrir?

Hvað er New European Bauhaus?

New European Bauhaus (NEB) er stefnu- og fjármögnunarátak sem gerir græna umbreytingu í byggðu umhverfi – og víðar – aðlaðandi, ánægjulega og aðgengilega fyrir alla. Jafnvel smæstu samfélög eiga rétt á lífsgæðum í rýmum sem efla vellíðan þeirra og tilfinningu fyrir að tilheyra. Verkefnið stuðlar að lausnum sem eru ekki einungis sjálfbærar, heldur einnig inngildandi og fallegar, á sama tíma og borin er virðing fyrir fjölbreytileika staða, hefða og menningar í Evrópu og víðar.

IMG_1191.jpeg
IMG_1209.jpeg

Niðurstöður

Eftirfarandi eru niðurstöðurnar úr vinnustofunni. Þátttakendur röðuðu lykilatriðum innan þriggja aðalhluta NEB - sjálfbærni, fegurðar og inngildingar - eftir mikilvægi. 

 

Ítarlegri umfjöllun um niðurstöðurnar, auk niðurstaða úr annarri vinnustofu um NEB sem haldin var 11. júní á málþinginu Byggjum til framtíðar (Healthy Buildings 2025) kemur út í fréttabréfi Grænni byggðar í haust  (skráðu þig á póstlista). Við stefnum á að halda umræðunni um NEB á lífi áfram - fylgist með samfélagsmiðlunum okkar!

Sjálfbærni:

Tvö lykilatriði voru sett í efsta sæti í hlutanum um sjálfbærni, þó margir hópar hafi einnig talið mörg önnur lykilatriði mikilvæg:

- Hringrásarhagkerfi í byggingargeiranum (S.9);

- Að ná sem bestum grænum áhrifum opinbera geirans hvað varðar efnahagslega þátttöku hans í sjálfbærni byggða umhverfisins (S.7).

Algengasta ástæðan fyrir því að Hringrásarhagkerfi í byggingargeiranum var valið var að hugtakið er margþætt og nær yfir mörg atriði, sem gerir það yfirgripsmikið og þar af leiðandi viðeigandi fyrir stóran hluta af hagsmunaaðilum byggingargeirans. Hóparnir lögðu einnig áherslu á mikilvægi þess að fjármálageirinn og opinberir aðilar taki þátt í sjálfbærni aðgerðum. 

Eftirfarandi tvö lykilatriði enduðu í neðstu sætunum:

- Lágmarka umhverfisáhrif á loft og vatn sem ekki tengjast orku (S.5);

- Lágmarka notkun jarðefnaeldsneytis í byggðu umhverfi (S.1).

Ástæðan fyrir þessu var að samkvæmt þátttakendum hefur mikil áhersla þegar verið lögð á þessi atriði og fjölmargar aðgerðir nú þegar í gangi í tengslum við þau.

Fegurð:

Líkt og í sjálfbærni hlutanum voru tvö lykilatriði í efstu sætunum:

- Að hámarka endingu og líftíma (B.6);

- Að tryggja heilsu, þægindi og vellíðan íbúa (B.4),

en Stafræn umbreyting í byggingariðnaði (B.1) var afgerandi sett í neðsta sæti.

 

Margir hópar lögðu áherslu á mikilvægi þess að lengja líftíma bygginga og byggingarhluta, sem og mikilvægi þess að leggja meiri áherslu á vellíðan fólks í byggðu umhverfi (dagsbirta var til dæmis nefnd sem eitt af mikilvægustu atriðunum í þessu samhengi). Í tengslum við umræðu um að lengja endingu bygginga nefndu hóparnir einnig að hugarfarsbreyting væri nauðsynleg og að meðhöndla þurfi byggingar öðruvísi en aðrar neysluvörur sem er hent/breytt í samræmi við tískustrauma.

Þegar kom að Stafrænni umbreytingu í byggingariðnaði þótti þátttakendum erfitt að sjá tengslin milli skilgreiningar NEB á fegurð og forsmíði bygginga og byggingarhluta, forsmíði virðist vera andstæða fegurðar, sérstaklega hvað varðar fagurfræði.

Inngilding:

Þessi hluti vinnustofunnar var mesta áskoruninn fyrir þátttakendur, en þeim fannst skorta sérhæfða þekkingu til þess að meta þessi atriði. Mörg atriði voru einnig talin nátengd og sum sköruðust við lykilatriði í hlutanum um fegurð. Tvö atriði voru samt sem áður metin mikilvægust í íslensku samhengi:

- Hagkvæmni (e. affordability) (I.2);

- Alhliða gæði, jafnrétti og aðgengi (I.3).

Í tengslum við Hagkvæmni (e. affordability) voru vandamál á íslenskum húsnæðismarkaði nefnd og áhrif þeirra á samfélagið í heild, en sérstaklega áhrif á viðkvæma hópa (t.d. hversu erfitt það er að eignast húsnæði á Íslandi). Alhliða gæði, jafnrétti og aðgengi var talið tengjast Hagkvæmni á beinan hátt sem og lengri endingu bygginga (þ.e. rétt viðhald rýma og þjónustu).

Hér má finna ýtarlega skýrslu um NEB sem og tól sem hægt er að nota til þess að meta atriði úr NEB í eigin verkefnum.

IMG_1213.jpeg
2. Iceland Workshop.jpeg

Heimsókn í Urriðaból - Handhafa Grænu skóflunar 2024

23/05/2025

Þann 23. maí stóðu Grænni byggð og HJARK fyrir heimsókn fyrir aðila Grænni byggðar í leikskólann Urriðaból í Garðabæ, handhafa Grænu skóflunar 2024.

Í heimsókninni gekk Hulda Jónsdóttir frá HJARK, aðalhönnuður og hönnunarstjóri byggingarinnar, með þátttakendum um bygginguna í heild sinni og sagði frá hönnunarferlinu, framkvæmdinni, vottunarferli og fleiru. Þá fengu þátttakendur tækifæri til að spyrja spurninga og fá verðmæta innsýn inn í ýmsa þætti hönnurnarferlisins.

 

IMG_0798.jpg
IMG_0815.jpg
IMG_0809.jpg
IMG_0807.jpg

Upplýsingar um Urriðaból og hönnunargögn til dæmis má finna á heimasíðu Grænni byggðar undir Græna skóflan.

Við þökkum þeim sem komu í heimsóknina kærlega fyrir komuna og Huldu fyrir áhugaverða kynningu!

 

Aðalfundur Grænni byggðar 2025

29/04/2025

Aðalfundur Grænni byggðar var haldinn þriðjudaginn 29. apríl kl. 15:00 í húsakynnum HMS í Borgartúni. Öllum aðildafélögum Grænni byggðar var boðið á fundinn og var góð mæting. Hefðbundinn aðlfundarstörf fóru fram auk þess sem kosið var í þrjú sæti í stjórn. Eftirtalin voru kjörin í stjórn Grænni byggðar:
 

Alex Ingi Espersen, byggingarverkfræðingur hjá COWI
Anna Sigríður Jóhannsdóttir, arkitekt FAÍ
Bergþóra Góa Kvaran, sérfræðingur hjá Umhverfis- og orkustofnun


Alex og Bergþóra koma ný inn í stjórn og Anna Sigríður er endurkjörin. Anna Kristín Hjartardóttir, Elín Þórólfsdóttir, Sigríður Ósk Bjarnadóttir og Sunna Hrönn Sigmarsdóttir hafa umboð til eins árs til viðbótar og sitja því áfram í stjórn. Íris Þórarinsdóttir og Alexander Helgason hætta í stjórn og þökkum við þeim kærlega fyrir góð störf.

Ársskýrslu og ársreikning fyrir starfsemi Grænni byggðar árið 2024 má finna undir Rekstur á heimasíðunni. 

 

IMG_0669.JPG
IMG_0668.JPG

Auk hefðbundinna aðalfundarstarfa hélt starfsfólk Grænni byggðar stuttar kynningar á tveimur spennandi verkefnum sem Grænni byggð vinnur að. 

Aðalsteinn og Ástrós kynntu nýjar leiðbeiningar um losunarlausa verkstaði sem ætlað er að nýtast öllum þeim sem vilja draga úr losun frá framkvæmdasvæðum. Bæklingana Grænir verkstaðir með leiðbeiningunum má finna undir Útgáfur - Losunarlausir verkstaðir á heimasíðunni. 

Katarzyna sagði frá New European Bauhaus hugmyndinni og hlutverki Grænni byggðar í Bauhaus Goes North verkefninu. 

 

IMG_0678.JPG
IMG_0674.JPG
IMG_0670.JPG
IMG_0658.jpg

Morgunfundur - Bílakjallarar eða bílastæðahús: áhrif, áskoranir og framtíðarsýn

25/02/2025

Grænni byggð hélt morgunfund þann 25. febrúar klukkan 9:00 um bílakjallara og bílastæðahús. Fundurinn samanstóð af tveimur erindum og pallborðsumræðum. Yfir 90 manns sóttu fundinn sem var í streymi. Upptökur frá erindunum og pallborðsumræðum má finna hér að neðan. Takk fyrir komuna!

Morgunfundur bílakjallarar FB (1920 x 1080 px).png

Kolefnishlutlaus Reykjavík 2030: uppbygging og loftslagsáhrif - Hrönn Hrafnsdóttir og Herdís Sigurgrímsdóttir, Reykjavíkurborg

Hrönn og Herdís kynntu verkefni sem hófst hjá Reykjavíkurborg nýlega og snýr að því að umbylta vali íbúa á ferðamáta og hvernig mismunandi lausnir þegar kemur að bílastæðum hindra eða liðka fyrir breytingum á samgönguvenjum í borginni. Ein af spurningunum sem verkefnið miðar að því að svara er: munu bílakjallarar breyta venjum okkar þegar kemur að samgöngum eða festa bílinn í sessi sem okkar helsta ferðamáta?

Bílastæðahús og Borgarlína á Keldnalandi - Þorsteinn R. Hermannsson, Betri Samgöngur ohf. 

Þorsteinn kynnti tillögu að uppbyggingu nýs hverfis að Keldum og Keldnaholti með þremur Borgarlínustöðvum sem gerir ráð fyrir að byggð verði nokkur bílastæðahús á svæðinu. Bílastæðahúsin, sem hvert og eitt samnýtist fjölda íbúða og atvinnuhúsnæðis á nálægum lóðum, komi að mestu í stað einkabílakjallara og einkabílastæða inni á lóðum. Horfa á til þess að húsin geti hýst miðlæga þjónustu fyrir aðliggjandi svæði á jarðhæð og að hægt verði að breyta þeim í atvinnu- eða íbúðarhúsnæði ef bílastæðaþörf minnkar í framtíðinni.

Pallborðsumræður

Í pallborði sátu: 

Elín Þórólfsdóttir, teymisstjóri starfsumhverfis mannvirkjagerðar, Húsnæðis og mannvirkjastofnun.

Borghildur Sölvey Sturludóttir, arkitekt og deildarstjóri deiliskipulagsáætlana, Reykjavikurborg.

Ólafur Árnason, forstjóri, Skipulagsstofnun.

Íris Þórarinsdóttir, stjórnarformaður Grænni byggðar var fundarstjóri og stjórnaði pallborðsumræðum. 

Léttari í spori - málþing um vistvænan byggingariðnað (Small Steps, Big Impact)

03/04/2025

Í tengslum við HönnunarMars hélt Arkitektafélags Íslands í samstarfi við Grænni byggð, Húsnæðis- og mannvirkjastofnun, Miðstöð hönnunar og arkitektúrs og Visku-stéttarfélagi málþing um vistvænan byggingariðnað. Málþingið var jafnframt styrkt af Starfsþróunarsetri háskólamanna.

Annar aðalfyrirlesari málþingsins, arkitektinn Sinus Lynge, er einn af stofnendum EFFEKT design studio. Hugsjón hans er að tengja fólk aftur við náttúruna með góðri hönnun í víðum skilningi. EFFEKT er jafnframt einn af stofnendum frjálsu félagasamtakanna Reduction Roadmap sem gefið hafa út samnefndan vegvísi. Sinus Lynge kynnti hugmyndafræðina að baki vegvísinum, sem er afar metnaðarfullur og sýnir jafnframt hversu mikið þarf að draga úr losun í mannvirkjagerð til þess að uppfylla kröfur Parísarsáttmálans.

Hinn aðalfyrirlesarinn var Harpa Birgisdóttir prófessor og sviðsstjóri Sjálfbærni bygginga við Álaborgarháskóla. Hún hefur unnið að þróun hugbúnaðar sem reiknar vistspor bygginga, rannsóknum sem stutt hafa innleiðingu löggjafar varðandi vistspor bygginga og rannsókna sem sýna hvaða aðgerða er þörf til að byggingar gangi ekki á þolmörk jarðar og séu raunverulega sjálfbærar.

Elín Þórólfsdóttir, arkitekt MAA, umhverfis- og auðlindafræðingur og teymisstjóri hjá HMS, fjallaði svo um Vegvísi að vistvænni mannvirkjagerð, þann árangur sem náðst hefur og næstu skref. Hún ræddi einnig lífsferilsgreiningar (LCA) í reglugerð, hvernig þær eru innleiddar hér á landi og hvaða áhrif þær hafa á byggingariðnaðinn.

Að fyrirlestrum loknum áttu sér stað umræður, eftirfarandi sátu í pallborði: 


Sinus Lynge – fyrirlesari
Harpa Birgisdóttir – fyrirlesari
Elín Þórólfsdóttir - fyrirlesari
Logi Einarsson, Menningar-, nýsköpunar og háskólaráðherra
Borghildur Sturludóttir, arkitekt og deildarstjóri skipulagsfulltrúa Reykjavíkurborgar
Arnhildur Pálmadóttir, arkitekt og fulltrúi Íslands á Feneyjartvíæringnum í arkitektúr
Sigríður Ósk Bjarnadóttir, verkfræðingur og framkvæmdastjóri umhverfis- og gæðasviðs hjá Hornsteini
Andri Snær Magnason, rithöfundur og umhverfisverndarsinni

 

GB-des24-12.jpg

Morgunfundur: Ávinningurinn af viðhaldi innbyggðs kolefnis í fasteignum

24/01/2025

​Grænni byggð hélt á dögunum morgunfund í samstarfi við Iðuna fræðslusetur og Verkís, um ávinninginn af viðhaldi innbyggðs kolefnis í fasteignum. Viðhald fasteigna er sjaldan rætt í samhengi við samdrátt í kolefnislosun. Miklu frekar er rætt um efnahagslega hagkvæmni viðhaldsaðgerða. 

Ólafur Ástgeirsson, leiðtogi bygginga- og mannvirkjagreina hjá Iðunni setti fundinn og bauð áheyrendur velkomin. 

Ragnar Ómarsson, byggingafræðingur og viðskiptastjóri sjálfbærni hjá Verkís, hélt síðan fyrirlestur um málefnið og ræddi meðal annars hvernig samdráttur kolefnislosunar og kostnaðarhagkvæmni geta haldist í hendur, hvað felst í því að viðhalda innbyggðu kolefni, hvað björgunarverðmæti bygginga er og hvernig það er reiknað út.

Góð mæting var á fundinn sem var í streymi. 

Upptaka af fundinum verður aðgengileg hér innan skamms tíma.

Innbyggt kolefni RETT.png
ragnar.jpg

Heimsókn í Landsbankabygginguna

23/01/2025

Meðlimum Grænni byggðar bauðst þann 23. janúar að fara í heimsókn í nýtt húsnæði Landsbankans við Reykjastræti 6.

 

Húsnæði Landsbankans var tilnefnt til Grænu skóflunar árið 2024 og var til dæmis BREEAM vottað.  

Þátttakendur fengu kynningu á byggingarsögu húsins, hönnun, notkun, vottanaferli og fleiru. Þar á eftir fengu þátttakendur að skoða húsið með leiðsögn. 

Við þökkum Landsbankanum kærlega fyrir góðar móttökur!

IMG_0084.jpg
IMG_0082.jpg
IMG_0086.jpg
bottom of page