Græna Skóflan

Verðlaunin Græna skóflan voru veitt í fyrsta skipti á Degi Grænni byggðar 2022. Hún er viðurkenning fyrir mannvirki sem byggt hefur verið með framúrskarandi vistvænum og sjálfbærum áherslum. Verðlaunin eiga rætur sínar að rekja til aðgerðar 6.9. í Vegvísi að vistvænni mannvirkjagerð 2030:

Um Verðlaunin
Á síðasta vetri fór fram samkeppni meðal nemenda Listaháskóla Íslands um gerð verðlaunagripsins. Sigur úr bítum í þeirri samkeppni bar Hekla Dís Pálsdóttir og er verðlaunagripurinn útfærður eftir hönnun hennar. Gripurinn árið 2022 er úr íslensku grágrýti. Arngrímur Guðmundsson sá um vinnuteikningar, Steinsmiðjan um að skera grágrýtið og Stálnaust um vatnsskurð.

2022
Snemma núna í sumar var opnað fyrir tilnefningar mannvirkja til verðlaunanna. Fjölmargar tilnefningar bárust frá ýmsum aðilum víðs vegar að á landinu og spönnuðu tilnefningarnar mjög vítt svið mannvirkjagerðar, allt frá minni brúarframkvæmdum, einbýlishúsum og viðbyggingum, til umfangsmikilla þjónustustofnanna og fjölbýlishúsa.
Eftir yfirferð dómnefndar, sem að þessu sinni var skipuð stjórn Grænni byggðar, hefur eitt mannvirki verið valið til þess að hreppa verðlaunagripinn. Þótti dómnefndinni þetta tiltekna verkefni skera sig allnokkuð úr á mörgum sviðum.
Í niðurstöðu dómnefndar segir um mannvirkið:
Við undirbúning mannvirkjagerðarinnar hefur verið vandað við setningu markmiða fyrir verkefnið, bæði hvað varðar þá samfélagsstarfsemi sem mannvirkið rúmar og þeirri forskrift sem fylgja skyldi við hönnun þess.
Við úrlausn hönnunar hefur verið stuðst við lífsferilsgreiningu fyrir mannvirkið í heild sem styður við trúverðugleika þess að byggingin sé umhverfisvæn og kemur í veg fyrir grænþvott. Einnig hefur verið gerður samanburður á umhverfisáhrifum byggingarefna og efnisval hönnuða hefur verið byggt á þeim niðurstöðum sem mótar heilstætt og náttúrulegt útlit byggingarinnar.
Byggingin ber með sér að fyrirmæli framkvæmda og markmið verkefnisins hafi skilað sér í úrvinnslu verktaka og að eftirfylgni eigandans með BREEAM vottun á hönnun og framkvæmd muni staðfesta hvernig sjálfbærnimarkmiðum verkefnisins verður náð.
Sú staðreynd að um endurgerð á eldri byggingu er að ræða, þar sem kappkostað hefur verið að nýta sem best það steypta burðarvirki sem fyrir er, tryggir að framkvæmdin verður sporléttari en ella, auk þess að koma í veg fyrir óþarfa framleiðslu og flutning á nýjum byggingarefnum og úrvinnslu úr auðlyndum vegna byggingarinnar. Sem slík er byggingin verðug fyrirmynd fyrir endurbyggingar eldri mannvirkja í framtíðinni.
Mannvirkið sem hlaut Grænu skófluna árið 2022 er leikskólinn Brákarborg í Reykjavík að Kleppsvegi 150-152.
Brákarborg er í eigu Reykjavíkurborgar.
Að hönnun og framkvæmd stóðu eftirtaldir aðilar:
→ Efla hf. hafði umsjón með lífsferilsgreiningum;
→ Arkamon ehf. sá um hönnun burðarvirkis;
→ Teknik verkfræðistofa ehf. hannaði lagnir;
→ Liska ehf. hannaði rafkerfi og ljósvist;
→ Kanon arkitektar ehf. sáu um landslagshönnun;
→ Brunahönnun var í höndum Mannvits hf.;
→ Verktaki var Þarfaþing hf.;
→ BREEAM vottun var undir stjórn Verkís hf.
