top of page
Nordic_Sustainable_Construction_logo.png

Um verkefnið

Verkefnið Losunarlausir Verkstaðir er fjórði verkpakkinn af fimm í norræna verkefninu Nordic Sustainable Construction. Verkefnið er hluti af Nordic Vision 2030 sem komið var af stað af norrænu byggingar- og húsnæðisráðherrunum. 
Innviðaráðuneyti Íslands ber ábyrgð á fjórða verkpakkanum, Losunarlausum Verkstöðum. Grænni Byggð á Íslandi og Húsnæðis- og Mannvirkjastofnun styðja ráðuneytið við úrlausn verkpakkans. Verkefnið er fjármagnað af Nordic Innovation, stofnun sem heyrir undir Norrænu ráðherranefndina.

Building Construction

Um verkpakkann

Norðurlönd eru meðal þeirra fyrstu í heiminum sem leitast við að setja staðlaðar takmarkanir fyrir losun bygginga. Með verkpakkanum, losunarlausum verkstöðum munum við kafa ofan í þann hluta lífsferils bygginga sem snýr að  framkvæmdinni.


Hingað til hefur megin áherslan verið á losun gróðurhúsalofttegunda frá framleiðslu byggingarefna og rekstrarfasa bygginga. Þetta er að breytast þar sem nýlegar rannsóknir sýna að losun frá byggingarframkvæmd er verulegur hluti af allri losun lífsferils bygginga. Í byggingum þar sem losun frá rekstrarfasa hefur verið lágmörkuð er losun byggingarframkvæmdarinnar allt að 15% af losun alls lífsferilsins. Helstu áhrifavaldar losunar eru flutningar, vinnuvélar og orkunotkun til hitunar og þurrkunar. Úrgangur og tapað efni stuðlar einnig að aukinni losun gróðurhúsalofttegunda og þarf að taka tillit til þess í byggingarferlinu.


Vinnuvélar, hitun og flutningar byggja að miklu leyti á bruna jarðefnaeldsneytis. Þetta hefur neikvæð áhrif á bæði loftslag og staðbundin loftgæði, sérstaklega í þéttbýli. Við bruna eldsneytis myndast nituroxíð, svifryk og önnur loftborin efni sem hafa neikvæð áhrif á lýðheilsu.


Tilgangur verkpakkans er að draga úr kolefnislosun og annarri beinni losun á byggingarsvæðum. Það verður gert með því að ýta á eftir notkun losunarlausra orkugjafa og með þróun skipulagslausna til að draga úr flutningum og bæta meðhöndlun auðlinda með það að markmiði að draga úr losun og auðlindanotkun.


Eins og er hefur ekkert Norðurlandanna sett staðlaðar viðmiðanir fyrir losunarlausa verkstaði og hafa Norðurlöndin því einstakt tækifæri til að samræma reglugerðir og leiðbeiningar.


Til að skapa stuðning, sýnileika og traustan grunn fyrir aukna áherslu á byggingarframkvæmdir með litla kolefnislosun, verður mótuð sameiginleg norræn yfirlýsing og gerðar ráðstafanir til að tryggja stuðning og viðurkenningu norræns byggingariðnaðar.

Staðan

Skýrsla - birt 16. mars 2023

Síðustu mánuði hefur áherslan verið lögð á að safna gögnum og vinna að skýrslu sem skilgreinir kerfismörk og hugtök tengd losunarlausum verkstöðum. Skýrslan lýsir einnig stöðunni í dag og er góður undirbúningur fyrir næstu skref verkpakkans. Sameiginlegar skilgreiningar á hugtökum verkstaða og hvaða losun er innifalin er grunnur að norrænum reglugerðum og leiðbeiningum á þessu sviði.

Net hagsmunaaðila

Einnig höfum við komið á samstarfsneti sem samanstendur af hagsmunaaðilum byggingargeirans. Samstarfsnetið hefur verið og mun vera notað til þess að afla upplýsinga um nýjungar, lausnir og spár um þróun á þessu sviði. 
Húsnæðisyfirvöld og stórir opinberir innkaupaaðilar eru helstu áhrifavaldarnir í þessum málum en byggingaverktakar, tækjaframleiðendur og samtök iðnaðarins hafa þegar tekið af skarið í átt að losunarlausum verkstöðum. Samstarfsnetið mun auðvelda okkur að miðla upplýsingum um byggingarmál í tölvupóstum og með rafrænum viðburðum sem og að mynda umræður.

Heimsókn á verkstað

Ennfremur hefur net-viðburður  verið skipulagður  þar sem sýnt verður frá skoðunarferðum á losunarlausa verkstaði. Þetta er gert til að kynna raunverulegar lausnir og nýjar, leiðandi hugmyndir.

Næstu skref

Í næsta áfanga verkefnisins verður lögð áhersla á að finna göt í þekkingu sem framtíðar rannsóknir þurfa að brúa þegar kemur að losunarlausum verkstöðum. Upplýsingum verður safnað um norrænar styrktar stofnanir og hvatt verður til aukinnar áherslu á styrkúthlutanir til verkefna því tengdu. Skýrsla um rannsóknarþarfir fyrir losunarlausa verkstaði verður birt. Einnig verður samstarfsnetið eflt og hvatt verður til umræðu um mikilvæg efni s.s. ívilnanir, fjármögnun, hindranir og fleira.

Building Construction

Framundan

→ Norræn yfirlýsing um losunarlausa verkstaði samþykkt af norrænu ráðherranefndinni og af norrænum aðilum í byggingariðnaði.

→ Hvetja til norrænna rannsókna og nýsköpunar sem styðja við losunarlausa verkstaði.

→ Aðstoða við þróun leiðbeininga fyrir framkvæmdaraðila og byggingarfyrirtæki á losunarlausum byggingarsvæðum og búa til rafræna handbók.

bottom of page